Advertisement
Gullbjörnin í stuði Prenta Rafpóstur
laugardagur 18. september 2010
jarl2 Sigurbjörn og Jarl frá Mið-Fossum. Mynd/Jens
Hinn 58 ára knapi og keppnismaður Sigurbjörn Bárðarson, Gullbjörninn, var maður mótsins á Meistaramóti Andvara um helgina. Hann setti Íslandsmet í 150m skeiði á rafræna klukku á Óðni frá Búðardal 13,98 sekúndur, vann A flokk gæðinga á Stakki frá Halldórsstöðum í sjötta sinn með 8,95 í einkunn, og tölt á Jarli frá Mið-Fossum með einkunnina 7,97. Rétt er að geta þess að þetta er í sjöunda sinn sem Stakkur vinnur þessa keppni á Meistaramóti Andvara. Knapi í fyrsta skiptið var Páll Bjarki Pálsson.

Úrslit í flokki atvinnumanna voru almennt sterk. Kjarnorka frá Kálfholti sigraði B flokk gæðinga með yfirburðum og fékk 9,0 í aðaleinkunn. Alfa frá Blesastöðum og Klerkur frá Bjarnanesi, sem voru í öðru og þriðja sæti, höfðu ekki roð af henni í þetta skiptið og voru allmörgum stigum neðar í einkunn.

Af nýjum hestum á mótinu komu tveir töltarar nokkuð skemmtilega á óvart. Jarl frá Mið-Fossum, Orrasonur frá Þúfu, hefur verið að komast í jafnvægi hægt og bítandi á keppnistímabilinu. Var í toppbaráttu á Íslandsmótinu og nú öruggur sigurvegari. Þykjast margir sjá í þessum hesti heimsmeistaraefni í tölti fyrir HM 2013 í Berlín. Voru nokkrir spekingar á svæðinu farnir að kalla Jarlinn Berlínar-Brún.

Fura frá Enni, sem Árni Björn Pálsson keppti á í tölti, er einnig spennandi töltari. Fura er aðeins sex vetra, undan Sveini-Hervari frá Þúfu og Sendingu frá Enni. Tinnu-svört og með „lúkkið“ til að ná toppi, en ekki kominn með fullan styrk ennþá. Díva frá Álfhólum, sem var í öðru sæti í tölti hjá Söru Ástþórsdóttir, stóð fyrir sínu en þó ekki eins fersk og áður, enda aðeins sex vetra líka.

Heimild: hestaroghestamenn.is

 
< Fyrri   Næsti >
 
 
 
 
Höfundarréttur © 2010 Oddhóll - Allur réttur áskilinn.
 
 
 
Design by Next Level Design / Script by Joomla!