Advertisement
Öldungur toppar á íslandsmóti Prenta Rafpóstur
laugardagur 18. september 2010
jarl Jarl frá  Miðfossum. Mynd/Jens
Íslandsmót fullorðinna í hestaíþróttum á Sörlastöðum var gott. Umgjörð mótsins og framkvæmd er Sörlafélögum til mikils sóma. Ekki spillti fyrir blíðskaparveður alla mótsdagana. Fjöldi góðra hrossa er orðinn meiri en áður, sem þýðir að fleiri góðir reiðmenn eiga möguleika á að blanda sér í toppbaráttuna. Sú var reyndin á þessu móti.

Sigurbjörn Bárðarson, 58 ára, var maður mótsins. Hann vann þrjár skeiðgreinar: 250 m skeið á Flosa frá Keldudal, 150 m skeið á Óðni frá Búðardal og gæðingaskeið á Flosa frá Keldudal. „Ég ákvað síðan að gefa strákunum sjens í 100 m skeiðinu“ sagði kappinn með bros á vör, en hann tók ekki þátt í þeirri grein. Sigurbjörn varð þriðji í fimmgangi á Stakki frá Halldórsstöðum og í öðru til þriðja sæti í tölti á Jarli frá Mið-Fossum. Sem sagt: Í toppbaráttu í öllum greinum sem hann tók þátt í. Glæsilegur árangur.

Annar hápunktur mótsins var úrslitakeppni í fimmgangi. Allir keppendur sýndu úrvals reiðmennsku, þótt ekki væri hún hnökralaus frá A til Ö. Enda kannski til of mikils ætlast. Hinrik Bragason á Glym frá Flekkudal var í sérflokki. Þar fór saman næmur og prúður knapi með fallega ásetu, slakur hestur, kraftmikill hestur, sáttur hestur. Samspil manns og hests án nokkurs vafa með því besta sem sést hefur í þessari grein. Það er líka rós í hnappagat hjá Hinrik að Glymur hefur ekki reynst öðrum knöpum auðveldur í beisli og höfuðburði. Knapinn í öðru sæti, Stefán Friðgeirsson (63 ára) á Degi frá Strandarhöfði, átti einnig frábæran leik. Sá karl hefur ekki vanið sig á að hanga í taumum um dagana. Sannkölluð fyrirmynd sem reiðmaður.

Sú keppnisgrein sem kom mest á óvart á þessu Íslandsmóti, og gefur vonandi fyrirheit um framhaldið, var mikil þátttaka og verulega sterk úrslit í slaktaumatölti, T2. Þessi grein hefur lengst af verið vanmetin hér á landi og verið kölluð ýmsum niðrandi nöfnum, eins og þvottasnúrutölt, svo dæmi sé tekið. Að þessu sinni kepptu til úrslita margir af helstu jöxlunum í hestaíþróttinni á glymrandi gæðingum. Enda kom í ljós að T2 er skemmtileg og kröfuhörð keppnisgrein, sem hver knapi getur verið stoltur af að ná árangri í. Íslandsmeistari, og langbestur í úrslitunum af mörgum góðum, er Jakob Svavarsson á Al frá Lundum.

Úrslit í tölti T1 voru nokkuð fyrirsjáanleg. Viðar Ingólfsson varði titil sinn frá í fyrra á Tuma frá Stóra-Hofi. Tumi hefur verið í frestu röð í meira en fimm ár og er knapa sínum og þjálfara til sóma. Heldur mýkt og framtaki á þann hátt sem aðeins rétt þjálfaður gæðingur gerir. Af nýrri hestum sem hugsanlega munu taka við af Tuma er helst að nefna Jarl frá Mið-Fossum, keppnishest Sigurbjörns Bárðarsonar. Átta vetra Orrasonur sem Sigurbjörn byrjaði með í keppni í fyrra. Og Árborg frá Miðey, sem er keppnishestur Jakobs Svavarssonar Einnig álitlegur töltari og hefur skorað hátt í sumar. Hún á að öfum þá Platon frá Sauðárkróki og Nökkva frá Vestra-Geldingaholti.

Hestar og hestamenn óska Sörlafélögum og keppendum til hamingju með vel heppnað og skemmtilegt Íslandsmót.

Heimild: hestaroghestamenn.is

 
< Fyrri   Næsti >
 
 
 
 
Höfundarréttur © 2010 Oddhóll - Allur réttur áskilinn.
 
 
 
Design by Next Level Design / Script by Joomla!