Advertisement
Diddi og Fríða Prenta Rafpóstur

diddi_fjolsk

Fjölskyldan öll á góðri stundu. Frá vinstri. Árni Páll, Sylvía, Steinar, Sara og Styrmir. Á milli Fríðu og Sigurbjörns er sá yngsti Sigurbjörn. Mynd/Axel Jón

Diddi og Fríða eiga fimm börn og öll fjölskyldan er virk í hestamennskunni. Elstur er Steinar, sem rekur hestabú og tamningastöð í Ameríku, þá Styrmir sem er við nám á hrossabraut Hólaskóla, Sylvía sem vinnur alfarið við hestamennsku, Sara sem er í skóla og stundar hestamennskuna í frístundum. Yngstur er Sigurbjörn, sem er líka í skóla og stundar hestamennskuna þegar hann má vera að, — en að eigin sögn er hann þó aðallega í veiðinni!

Fríða byrjaði fyrir alvöru að keppa á hestum þegar hún kynntist Sigurbirni. Hún tók þátt í stökkkappreiðunum af lífi og sál þegar þau voru upp á sitt besta, fyrir og um 1980. Hún hleypti hrossum sem skráðu nafn sitt á spjöld sögunnar, eins og Glóu frá Egilsstöðum, Reyk frá Bæ í Borgarfirði og Tinnu frá Hafnarfirði. Síðan tóku við barneignir og heimilisstörf og þar er Fríða á heimavelli, drífur allt áfram af myndarskap og röggsemi. Hún ríður ennþá út sér til skemmtunar og bregður sér annað slagið á bak góðum keppnishesti og rifjar það upp fyrir sjálfri sér og öðrum að hún er góður reiðmaður.

 

Ferill Sigurbjarnar er samfelld afrekssaga. Hann hefur unnið til nánast allra verðlauna sem knapi getur fengið. Aðeins einn mikilvægur titill hefur ennþá ekki fallið honum í skaut og það er A flokks bikarinn á Landsmóti. Ýmsir álíta að Sigurbjörn muni halda áfram að keppa þar til sá titill dettur inn. Framan af ferlinum var Sigurbjörn aðallega knapi á stökkhestum. Og það var einmitt kappreiðahesturinn Hrímnir frá Samtúni í Reykholtsdal sem kom honum á bragðið, en Hrímnir var einnig mikill gæðingur. Sigurbjörn varð efstur í B flokki á honum á Hvítasunnukappreiðum Fáks 1974 og þeir kepptu svo fyrir Fák á LM á Vindheimamelum sama ár. Einnig var Sigurbjörn með marga fræga vekringa á þjálfunarstöð hans og Harðar G. Albertssonar og má þar nefna hetjurnar Fannar frá Skeiðháholti og Leist frá Keldudal, sem báðir settu Íslandsmet í skeiði. Sigurbjörn sá jafnan um þjálfun skeiðhestanna og varð síðar aðalknapi á þeim og setti mörg frækileg met, sem sum standa ennþá. Varla er of mikið sagt þótt fullyrt sé að Sigurbjörn Bárðarson sé snjallasti og afkastamesti skeiðreiðarmaður í heimi á íslenskum hestum. Ferill hans vitnar um það. Áþað jafnt við um kappreiðaskeið, gæðingaskeið, og skeiðspretti í gæðinga- og íþróttakeppni. Yfirburðir hans felast einkum í sjálfsöryggi og sjálfsaga, nákvæmni og útsjónarsemi, ásamt hárfínu næmi fyrir hestinum, hreyfingum hans, viðbrögðum og skapgerð.

 

kolskeggur149924Sigurbjörn og Kolskeggur á flugaskeiði í Víðidal. Mynd/Axel Jón

Ferill Sigurbjörns á skeiðbrautinni er þakinn skrautfjöðrum. Hannhefur sett Íslandsmet í öllum vegalengdum skeiðkappreiða: Í 250 m skeiði á Leisti frá Keldudal og Óðni frá Búðardal (sem stendur enn), í 150 m skeiði á Neista frá Miðey, og í 100 m skeiði á Óðni frá Búðardal. Hann setti eftirminnilegt heimsmet í 250 m skeiði á Gordon frá Stóru-Ásgeirsá á HM1999 í Rieden og er sú stund ein sú eftirminnilegastaí sögu kappreiða og hestamóta á íslenskum hestum. Sigurbjörn varð einnig fyrstur til að vinna 100 m skeið á heimsmeistaramóti á Gordon. Þáhefur Sigurbjörn þrisvar sinnum orðið heimsmeistari í gæðingaskeiði og Íslandsmeistari ótal sinnum. Er þessi upptalning aðeins brot af öllum hans afrekum í skeiðgreinum. Eftir að Hrímir kom Sigurbirni á bragðið fór boltinn að rúlla og fleiri gæðingar komu til sögunnar, svo sem Ljúfur frá Kirkjubæ, Brjánn frá Sleitustöðum (Íslandsmeistari í tölti ogfjórgangi tvö ár í röð), Garpur frá Oddsstöðum (Íslandsmeistari í fimmgangi), Adam frá Hólum (Evrópumeistari í samanlögðum 1981), Gári fráBæ (Íslandsmeistari í fjórgangi þrjú ár í röð), Gormur frá Húsafelli (alhliða gæðingur og kappreiðavekringur með 22,0 sek. í 250m skeiði), Hilda frá Ólafsvík (braut blað í sögu kynbótahrossa á FM1985 fyrir mikinn fótaburð, vilja og fas), Fengur frá Lýsudal (efstur í A flokki á FM1988 á Kaldármelum), Skelmir frá Krossanesi (Íslandsmeistari í fjórgangi og í úrslitum á HM 1989).

Tvo keppnishesta Sigurbjörns er vert að minnast á sérstaklega, en það eru þeir Kalsi frá Laugarvatni og Brjánn frá Hólum. Kalsi var ósigrandi ífimmgangi á árunum 1985 til 1987 og á Íslandsmóti á Dalvík 1987 varð Sigurbjörn Íslandsmeistari í nær öllum keppnisgreinum á þessum hestum, þar með talið í fimmgangi á Kalsa og í tölti á Brjáni. Hlaut hann eftir það mót viðurnefnið „gullbjörninn“. Sama sumar vann hann sér sæti í landsliðinu á báðum hestunum en þurfti að velja annan hvorn. Hann valdi Brján og varð heimsmeistari í tölti á honum á EM í Austurríki 1987. Áfram skal haldið. Á LM1990 vann Sigurbjörn það afrek að ríða Svarti fráHögnastöðum í hæstu einkunn sem gefin hefur verið í A flokki á landsmóti, 9,27, en þeir urðu í þriðja sæti í úrslitum. Á sama móti var hann með efstu 6 vetra hryssuna, Gerplu frá Högnastöðum. Þá kom gæðingurinn Höfði frá Húsavík einnig til sögunnar og varð Sigurbjörn Íslandsmeistari í fimmgangi á honum það sumar. Þeir áttu giftudrjúgan feril saman og náðu hátindi á HM1993 í Hollandi þar sem Sigurbjörn varð heimsmeistari í gæðingaskeiði, fimmgangi og samanlögðum stigum. Það ár var Sigurbjörn kjörinn íþróttamaður ársins hjá ÍSÍ, sem er mesti heiður sem íslenskum knapa hefur hlotnast.


Þá má ekki gleyma
hinum merka hesti Oddi frá Blönduósi, sem er sá keppnishestur sem einna lengst hefur dvalið með fjölskyldunni. Sigurbjörn vann ótal titla á þessum fagra hesti og saman eru þeir margfaldir Reykjavíkurmeistarar, Íslandsmeistarar og Landsmótsmeistarar.Á LM2000 í Reykjavík var Sigurbjörn enn og aftur á toppnum. Þar varð hann efstur í B flokki gæðinga á stóðhestinum Markúsi frá Langholtsparti. Atti hann þar kappi við marga frábæra klárhesta og má þar nefna Valíant frá Heggsstöðum, Víking frá Voðmúlastöðum og Glampa frá Vatnsleysu.

grunur_og_diddi

Grunur frá Oddhóli og Sigurbjörn Bárðarson, landsmótssigurvegarar í töllti 2006. Mynd/Axel Jón

Ferill Sigurbjörns sem íþróttamanns spannar orðið hátt í fjóra áratugi. Hann er fæddur 1952 og er ennþá í flottu formi og lætur ekki deigan síga. Hann er í raun lifandi fordæmi um hvað er hægt að gera ef menn varðveita heilsuna og hafa trú á sjálfumsér. Á landsmótinu á Vindheimamelum 2006 sýndi hann og sannaði að hann er ennþá einn af þeim bestu, en þar vann hann ein eftirsóttustu verðlaunmótsins, gullið í tölti. Reiðskjótinn var úr hans eigin ræktun, stóðhesturinn Grunur frá Oddhóli. Hann vann einnig fjölda annarra verðlauna á árinu, sem of langt mál væri að telja upp. Í lokin má geta þess að Sigurbjörn hefur byggt sérstakt hús yfir verðlaunagripi sína og er það safn af fróðum mönnum talið eitt það gripaflesta í heimi hjá íþróttamanni.

 
 
 
 
 
Höfundarréttur © 2010 Oddhóll - Allur réttur áskilinn.
 
 
 
Design by Next Level Design / Script by Joomla!